lgn.is - 14.11.2013 Verulegur sparnaður lyfjakostnaðar hjá ríkissjóði og sjúklingum
Hafðu samband

LYFJASTOFNUN

Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík

Sími 520 2100

Netfang: [email protected]


 

 

14.11.2013 Verulegur sparnaður lyfjakostnaðar hjá ríkissjóði og sjúklingum
14.11.2013 - 14.11.2013 Verulegur sparnaður lyfjakostnaðar hjá ríkissjóði og sjúklingum

Verulegur sparnaður lyfjakostnaðar hjá ríkissjóði og sjúklingum

Áætlað er að heildarverðendurskoðun lyfjagreiðslunefndar á apótekslyfjum og sjúkrahúslyfjum muni leiða til sparnaðar í lyfjaútgjöldum á ársgrundvelli sem nemur tæpum milljarði króna. Lyf lækka í verði til samræmis við niðurstöður verðsamanburðar við lyfjaverð annars staðar á Norðurlöndunum.

Í lyfjalögum er kveðið á um það markmið að lyfjakostnaði hér á landi skuli haldið í lágmarki. Á grundvelli þess er lyfjagreiðslunefnd falið að sjá til þess að lyfjaverð sé að jafnaði sambærilegt við verð í viðmiðunarlöndum á Evrópska efnahagssvæðinu, sem eru Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, líkt og fram kemur í reglugerð um lyfjagreiðslunefnd nr. 353/2013.

Verðsamanburðurinn tekur til apótekslyfja og sjúkrahúslyfja. Verðsamanburður  á apótekslyfjum byggist á meðalverði í viðmiðunarlöndunum fjórum en tekur mið af lægsta verði á sjúkrahúslyfjum í sömu löndum.

Lækkun á apótekslyfjum í kjölfar verðendurskoðunar Lyfjagreiðslunefndar tók gildi í maí síðastliðnum og er áætlað að sparnaðurinn nemi um 430 milljónum króna á ársgrundvelli. Þessi ávinningur skiptist á milli Sjúkratrygginga Íslands um 263 milljónir króna og um 167 milljónir króna hjá sjúklingum miðað við smásöluverð með virðisaukaskatti. 

Lækkun á sjúkrahúslyfjum tók gildi 1. nóvember og er áætlað að sparnaður sem þar af leiðir verði um 525 milljónir króna á ársgrundvelli miðað við heildsöluverð með virðisaukaskatti þegar tillit hefur verið tekið til gildandi útboða.

Nærri 90% meiri ávinningur nú en fyrir tveimur árum

Umrædd endurskoðun lyfjagreiðslunefndar leiðir til ríflega 955 milljónir króna heildarsparnaðar á ársgrundvelli. Þetta er nærri 90% meiri sparnaður en náðist við sambærilega endurskoðun sem gerð var fyrir tveimur árum en þá sparaðist rúmlega hálfur milljarður króna. Viðbótarsparnaðurinn sem nú næst kemur einkum fram í sjúkrahúslyfjunum.

Sparnaður vegna apótekslyfja gæti orðið meiri

Reynslan hefur sýnt að lækkun á hámarksheildsöluverði frumlyfja og samheitalyfja hefur í för með sér ákveðin ruðningsáhrif með aukinni verðsamkeppni sem hafa áhrif á viðmiðunarverðskrá lyfjagreiðslunefndar og því er ekki ólíklegt að sparnaður vegna apótekslyfja geti jafnvel orðið meiri.

Lyfjagreiðslunefnd þakkar gott samstarf við lyfjafyrirtæki í landinu til að ná fram þessum sparnaði bæði fyrir ríki og sjúklinga

Nánari upplýsingar veitir Rúna Hauksdóttir, formaður Lyfjagreiðslunefndar, beinn sími 553-9050, farsími 899-6962