lgn.is - 18.04.2012 Breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í geðrofslyfjum
Hafðu samband

LYFJASTOFNUN

Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík

Sími 520 2100

Netfang: [email protected]


 

 

18.04.2012 Breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í geðrofslyfjum
18.04.2012 - 18.04.2012 Breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í geðrofslyfjum

Velferðarráðherra hefur undirritað reglugerð um 6. breytingu á reglugerð nr. 403/2010 um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á lyfjum sem tekur gildi þann 1. júní næstkomandi. Reglugerðin felur í sér breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í geðrofslyfjum þannig að um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga verður aðeins að ræða þegar verð á skilgreindum dagskammti er 600 krónur eða lægra. Þó verður mögulegt að sækja um lyfjaskírteini fyrir öðrum geðrofslyfjum hafi meðferð reynst vel, samkvæmt vinnureglu um útgáfu lyfjaskírteinis. 

Helstu markmið breytinganna eru að:

  • Hvetja til ávísunar á hagkvæmari lyf, sem fyrsta val í meðferð, til samræmis við notkun í löndunum í kringum okkur.
  • Ná fram lækkun á verði lyfja, bæði hjá samheitalyfjum og frumlyfjum.
  • Draga úr notkun lyfja utan skráðra ábendinga.
  • Hvetja til ávísunar hagkvæmari pakkninga lyfja.

Með reglugerð þessari, sem unnin er í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands, Lyfjagreiðslunefnd, Geðlæknafélag Íslands og framkvæmdastjóra geðsviðs Landspítala, er eins og að ofan greinir markmiðið að draga úr lyfjakostnaði, en áætlað er að lyfjakostnaður sjúkratrygginga geti lækkað um 50–100 milljónir króna á ársgrundvelli vegna breytinganna. Alls eru um 9.700 manns á lyfjum í þessum lyfjaflokki og nam kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna þeirra um 756 milljónum króna árið 2011. Við vinnslu reglugerðarinnar var komið til móts við fjölda athugasemda sem bárust þegar drögin voru send hagsmunaaðilum til umsagnar.

Lyf í umræddum lyfjaflokki hafa verið greidd að fullu af sjúkratryggingum m.v. greiðsluþátttökuverð sem samþykkt hefur verið af lyfjagreiðslunefnd. Í þeim tilfellum sem verð á skilgreindum dagskammti er hærra en 600 krónur, munu Sjúkratryggingar Íslands ekki greiða fyrir lyfið nema að undangenginni umsókn um greiðsluþátttöku frá lækni og uppfylltum skilyrðum samkvæmt vinnureglu stofnunarinnar.  Með breytingunni er ekki ætlast til að meðferð sem gengur vel verði breytt heldur er markmið að fyrst val, þegar hefja á meðferð, verði með hagkvæmari pakkningum en oft er í dag.

Lyfjaávísanir á þau lyf sem fá breytta greiðsluþátttöku og gefnar eru út fyrir gildistöku reglugerðarinnar halda óbreyttri greiðsluþátttöku til 31. október 2012.

Sjá frétt: http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/33352